Ferðast með börn
Tenerife er mjög barnvæn eyja. Það er auðvelt að komast um allt með barnakerrur. Stéttarnar eru oftast úr marmara eða flísum og því þægilegt að keyra kerrur á þeim. Eyjan er mjög örugg, en samt er alltaf gott að hafa þá reglu að láta börnin aldrei úr augsýn.
Þar sem flugið er langt (um 5 tímar) borgar sig að vera að minnsta kosti 10 daga til að njóta ferðarinnar sem best. Flest hótel og gististaðir á aðal ferðamannasvæðinu eru innan við hálftíma akstur frá flugvellinum. Þess vegna er hægt að byrja að slaka á eða gera eitthvað skemmtilegt stuttu eftir lendingu.
Bestu svæðin fyrir börn
Bestu svæðin til að vera á með börn eru við Amerísku ströndina og á Adeje-svæðinu. Í Adeje eru það til dæmis svæðin Fañabe, Torviscas, og El Duque. Á Amerísku ströndinni eru það helst hótelin nálægt Avenue las Américas eða „Laugaveginum“ þar sem Parque Santiago-hótelin eru. Og líka á hótelunum fyrir aftan Laugaveginn, að Avenue Antonio Dominguez. Nokkrar ísbúðir, minigolf, leikvöllur (Parque Infantil) og fleira áhugavert er í göngufæri fyrir stutta fætur. Þaðan er stutt í litlar og þægilegar strendur, og líka þá stærstu, Vistas-ströndina. Eldri börnin geta lært að sörfa eða kafa hjá mörgum aðilum á svæðinu.
Veronicas-svæðið á Amerísku ströndinni er aðal djammsvæðið, þannig að það er ekki alltaf hægt að treysta á að fá góðan nætursvefn þar í kring.
Mælt er með því að bóka hótel með fullu fæði þegar ferðast er með börn. Annars geta evrurnar verið fljótar að hverfa þegar það þarf að kaupa drykki og ís á sundlaugasvæðinu, og mat yfir daginn.
Í næsta nágrenni við vinsælustu strendurnar eru verslanir þar sem er hægt að kaupa stranddót fyrir börnin. Kútar, skóflur, fötur og form til að sulla með eða búa til listaverk. Það er auðvelt að búa til skemmtilegar minningar á ströndinni eða í sundlaugagarðinum.
Hótel fyrir barnafjölskyldur
Stærstu hótelin eru með sérstök barnaleiksvæði, bæði í sundlaugagarðinum og innandyra. Þetta á að vera tekið fram á heimasíðum hótelanna.
Parque Santiago III hótelið (við Laugaveginn) er með skemmtilegt, afgirt barnasvæði með litlum rennibrautum og leiktækjum í grunnri laug. Þetta er íbúðahótel og ef þið gistið þar þá er til dæmis hægt að fá íbúð á neðstu hæð með afgirtum garði sem snýr út að sundlauginni. Þetta er eitt af uppáhaldshótelum Íslendinga með börn á öllum aldri.
Beint á móti Parque Santiago III er mínígolf inni í fallegum garði. Það er hægt að kaupa drykki á staðnum. Við hliðina á því er barnaleiksvæði í afgirtum garði.
Parque Santiago er oft notað til viðmiðunar, þegar verið er að vísa fólki til vegar. Þessi hótel og Santiago nafnið eru áberandi á svæðinu, enda eru hótelin nefnd í höfuðið á Santiago Puig sem byggði upp svæðið sem heitir Ameríska ströndin, ásamt föður sínum, Rafael Puig.
Hér er fjallað nánar um bestu fjölskylduhótelin og hvaða þjónusta er í boði; krakkaklúbbar, barnaleiksvæði og fleira.
Það er margt í boði fyrir börn. Það sem stendur upp úr hjá flestum er vatnsrennibrautagarðurinn Síam Park, sem hefur nokkrum sinnum verið valinn sá besti í heimi. Þar eru brautir fyrir alla aldurshópa og lokað svæði fyrir yngstu börnin. Nánari lýsing á skemmtigörðum og fleiru spennandi er undir flipanum Afþreying.
Ef þið verðið á íbúðahóteli eða í íbúð þá eru meiri upplýsingar um matvöru og verð hér.
Eldri börn og unglingar
Önnur afþreying er meðal annars minigolf, go-kart, klifurbrautir við Vistas-ströndina, hjólabrettagarðar, stjörnuskoðunarstöð á El Teide, Loro Parque dýragarðurinn, vísindasafn og margt fleira. Kíkið á hlutann um afþreyingu fyrir börn til að sjá meira.
Leigja barnastóla, kerrur o.fl.
Það getur verið þægilegt að fá vana manneskju til að skutla sér á milli staða og enn betra ef hún talar íslensku. Rósa Tenerife býður upp á skutlþjónustu og bílstólaleigu. Þið finnið hana á Facebook.
Það er hægt að leigja kerrur, barnabílstóla, burðarpoka, ferðarúm, ömmustóla og fleiri barnagræjur hjá tækjaleigunni Travel4Baby (hét áður Hire4Baby)og fá afhent á flugvellinum eða hótelinu. Í lok ferðarinnar eru leigðir munir síðan einfaldlega sóttir til ykkar eftir samkomulagi. Það er bæði hægt að greiða fyrir þjónustuna fyrirfram eða borga bílstjóranum við afhendingu. Það er boðið upp á að leigja samdægurs en þá þarf að hringja í símanúmerið sem er gefið upp á heimasíðunni þeirra. Travel4Baby er bæði á Tenerife og Kanarí.
Margar íslenskar fjölskyldur hafa nýtt sér báðar þessar þjónustur og mæla 100% með þeim.
Sjá líka Ferðast með ungbörn.