Punta de Teno

Punta de Teno

Punta de Teno er vestasti hluti Tenerife. Yst á skaganum er viti og þaðan er mjög fallegt útsýni yfir Teno-fjallgarðinn og eyjarnar La Gomera og La Palma. Það er ekki hægt að fara inn í vitann sjálfan en það er góð aðstaða á svæðinu umhverfis hann. Vitinn var opnaður 1978 og kom þá í staðinn fyrir upprunalega vitann frá 1897. Yngri vitinn er enn virkur og er núna knúinn með sólarorku.

Vitavegurinn

„Vitavegurinn“ Carretera del Faro er falleg en hrikaleg leið að vitanum. Ef þið sáuð myndina Fast and the furious 6 þá getur verið að þið kannist við veginn úr byrjunaratriðinu.

Teno skagi og hafið
Punta de Teno-skaginn

Þetta er vinsæl og falleg leið. En vegna þess að vegurinn er inni á verndarsvæði, hefur umferð þangað verið takmörkuð. Veginum hefur sem sagt verið lokað fyrir almenna bílaumferð yfir daginn. Undanþágur eru fyrir fólk með hreyfihömlun.

Núorðið er aðeins hægt að komast út á skagann með skipulögðum rútuferðum frá Buenavista del Norte yfir daginn eða á bílaleigubíl (eða einkabíl) á þessum tímum (alla daga vikunnar):

Á sumrin má aka að vitanum fyrir kl. 9 á morgnana og eftir kl. 8 á kvöldin.

Á öðrum árstímum má aka að vitanum fyrir kl. 10 á morgnana og eftir kl. 7 á kvöldin.

Ef þið eruð í vafa um hvernig og hvenær er best að komast að vitanum getið þið spurst fyrir á hótelinu ykkar eða á næstu upplýsingamiðstöð.