Norður-Tenerife

Það er algjörlega þess virði að fara í skoðunarferðir um eyjuna, hvort sem farið er á eigin vegum, í bílaleigubíl eða rútu, eða með íslenskum fararstjórum sem gjörþekkja eyjuna. Aðal ferðamannasvæðið er á suðurhluta Tenerife vegna þess að þar er sólríkara. Á Norður-Tenerife eru borgir og bæir með ekta spænsku mannlífi, veitingastöðum, kaffihúsum, og fallegum byggingum. Stærstu borgir Tenerife eru allar á norðurhlutanum; höfuðborgin Santa Cruz, háskólabærinn La Laguna, og Puerto de la Cruz.

Á norðurhlutanum eru golfvellir, Anaga fjallgarðurinn, Loro Parque dýragarðurinn, verslanamiðstöðvar og margt fleira.

El Teide

El Teide

Eyjan er lítil en samt er ótrúlega mikill munur á gróðri og veðri, sérstaklega á veturna. Þriðja stærsta eldfjall í heimi, El Teide, er á miðri eyjunni og það hefur áhrif á veðurfarið. Það rignir sjaldan á suðurhlutanum og þar skín sólin nær alla daga ársins. Á norðurhlutanum er sólríkt þótt það rigni oftar. En það verður til þess að gróðurinn er einstaklega fallegur þar. Það er engin tilviljun að næstelsti grasagarður Spánar, El Botánico, er í bænum Puerto de la Cruz.

Göngustígur að strönd Puerto de la Cruz
Náttúran blómstrar í Puerto de la Cruz – Playa Jardín ströndin sést hér

Á ferðamannasvæðinu á suðurhlutanum og í höfuðborginni Santa Cruz talar flest þjónustu- og afgreiðslufólk ensku en þegar aðrir hlutar eyjunnar eru heimsóttir má gera ráð fyrir að þurfa að nota orðabók eða Google translate.

Anaga fjallgarðurinn er vinsælt útivistarsvæði

Það er einnig flugvöllur á norðurhluta Tenerife, Tenerife Norte. Hann er bæði fyrir innanlandsflug (innan Spánar) og millilandaflug. Þegar flogið er frá Íslandi er lent á flugvellinum fyrir sunnan, Tenerife Sur (TFS).