El Teide-þjóðgarðurinn

El Teide er þriðja stærsta eldfjall heims

El Teide þjóðgarðurinn á miðri eyjunni er á heimsminjaskrá UNESCO. Þangað koma um 3 milljónir ferðamanna á ári. Það er gott að plana hálfsdags- eða dagsferð þangað í bílaleigubíl eða rútu og munið eftir að taka með nesti, vatn og sólarvörn! 

Útsýni yfir La Orotava-dalinn á leiðinni upp á El Teide

Það er grillsvæði í þjóðgarðinum og munið að taka með ykkur kol og grilláhöld ef þið ætlið að grilla. Það eru borð og bekkir víðsvegar á staðnum.

El Teide er 3. stærsta eldfjall heims og er 3.718 metra hátt. Það var hærra en féll ofan í sjálft sig í jarðskjálfta fyrir þúsundum ára, sem útskýrir undarlegt útlit toppsins. El Teide var virkt frá 1704-1908 en það er enn flokkað sem virkt eldfjall. El Teide er hæsti punktur Spánar og hæsti punktur yfir sjávarmáli af öllum eyjum í Atlantshafi. Landslagið er ótrúlega líkt Íslandi (á trjálausa svæðinu) enda báðar eldfjallaeyjar.

Nokkrir vegir liggja upp að þjóðgarðinum, meðal annars frá Arona-svæðinu og þaðan er um 90 mínútna akstur. Vegurinn er hlykkjóttur en það er hægt að stoppa á mörgum stöðum og fá sér ferskt loft ef einhver finnur fyrir bílveiki eða þreytu. Það eru vegrið og vegirnir eru  góðir. Það getur verið kalt uppi í fjallinu svo takið með ykkur peysu eða jakka til öryggis, jafnvel þó þið ætlið ekki að labba mikið. Loftið er um 50% þynnra en við sjóinn svo fólki með hjarta- og öndunarfærasjúkdóma er ráðlagt að ganga ekki langt þarna. Í þjóðgarðinum er líka annað hæsta eldfjall Kanaríeyja, Pico Viejo, 3.135 metra hátt.

Það er algjörlega bannað að kveikja eld á opnu svæði eða henda sígarettustubbum frá sér. Það er ekki langt síðan skógareldar geisuðu hér en talið er að eldurinn hafi kviknað út frá sígarettu.

Milli kl. 9-16 er hægt að fara upp á Teide í kláf (Teleférico). Ferðin tekur um 8 mínútur og það er stoppað 170 metra frá toppnum en þaðan er magnað útsýni yfir eyjuna.

Parador de Las Cañadas del Teide

Þetta er mjög vinsælt göngusvæði og fyrir þau sem eru að plana gönguferð er t.d. hægt að hefja hana frá eina hótelinu í þjóðgarðinum, Parador de Las Cañadas del Teide. Athugið samt að ef þið viljið fara alla leið á toppinn þarf að fá leyfi hjá Parque Nacional del Teide. Fararstjórar geta líka gefið nánari upplýsingar.

Hinumegin við veginn frá hótelinu er Los Roques de García-kletturinn sem er vinsælt að stoppa við vegna undarlegrar lögunar hans. Kletturinn hefur mótast svona í veðri og vindum.

El Teide er talið vera virkt eldfjall. Það er í sama flokki og Vesúvíus og Etna vegna tegundar gosa og nálægðar við byggð. Síðasta gos á svæðinu var í Montana Chinyero árið 1909.

Þegar Kristófer Kólumbus sigldi fram hjá Tenerife á ferð sinni að uppgötva Nýja Heiminn árið 1492, skýrði hann frá „miklum eldum í Orotava dalnum.“ Þetta var túlkað þannig að hann hefði orðið vitni að eldgosi þar. Gögn frá svæðinu sýna að þetta ár var gos í Boca Cangrejo-gígnum en ekki Orotava-dalnum.