Grasagarðarnir í Puerto de la Cruz

Grasagarðarnir í Puerto de la Cruz

Grasagarðurinn Jardín Botánico

Bæði grasagarðurinn og orkídeugarðurinn eru frá 18. öld. Jardín Botánico varð til þegar Carlos III Spánarkonungur fyrirskipaði að garðurinn skyldi byggður upp sem leið til að varðveita og rækta hitabeltisplöntur í viðeigandi loftslagi. Puerto de la Cruz hentaði vel til þess, enda er gróðurinn þar einstaklega fallegur. Garðurinn er stór, með fjölbreytt úrval af plöntum sem eru einstakar fyrir fegurð sína, aldur, stærð eða fyrir að vera sjaldgæfar.

Orkídeugarðurinn

Í Puerto de la Cruz er þessi fallegi garður, Jardin de Orquideas de Sitio Litre. Hann hefur verið innblástur fyrir margt listafólk, þar á meðal Agöthu Christie. Hún heillaðist svo af garðinum að sögusvið næstu skáldsögu hennar gerðist í Puerto de la Cruz. Húsið er í einkaeigu en garðurinn er opinn almenningi.

Einn af fyrstu gestum garðsins var hinn heimsfrægi landkönnuður og náttúrufræðingur Alexander von Humboldt. Hann var heiðursgestur í veislu sem var haldin honum til heiðurs 1799. Hann var þá staddur á Tenerife til að klífa El Teide og rannsaka landafræði og plöntulíf eyjunnar. Niðurstöður hans eru enn þann dag í dag notaðar í náttúruvísindarannsóknum.