Afþreying fyrir börn

Guli kafbáturinn

Í gula kafbátnum fær hver farþegi sér glugga. Mynd submarinesafaris.com.

Vinsælar afþreyingar eru meðal annars guli kafbáturinn, Pétur Pan skipið, klifurbrautir við Vistas-ströndina, stjörnuskoðunarstöð á El Teide, bob-sleðarnir í Jungle Park og margt fleira. (Kíkið líka á flettilistann undir Afþreying efst á síðunni til að sjá meira.)

Úlfaldagarðar eru á tveimur stöðum á Tenerife, fyrir sunnan og norðan. Þau sem þora geta farið á úlfaldabak en önnur láta sér nægja að skoða þessi stórvöxnu dýr og kannski gefa þeim banana.

Riddarasýningin

Þessi sýning stendur upp úr hjá mörgu af yngra ferðafólkinu. Riddarar að berjast með sverðum í sögufrægum kastala, sem er rétt hjá Los Cristianos. Matarveisla innifalin. Börnin gleyma sér við sýninguna og borða allt sem fyrir þau er lagt.

Hér er hægt að kaupa miða:

Go-kart og minigolf

Eitthvað sem öll fjölskyldan eða vinahópar hafa gaman af. Sjá go-kart, minigolf og fleira hér.

Hjólabrettagarðar

Á eyjunni eru nokkrir brettastaðir, þar af er einn á Amerísku ströndinni. Flestir hjólabrettagarðarnir eru aðeins fyrir utan aðal ferðamannasvæðið. Það eru líka nokkrir í höfuðborginni Santa Cruz, Puerto de la Cruz og fleiri stöðum fyrir norðan. Hér er hægt að skoða helstu hjólabrettagarðana og fá nánari leiðbeiningar.

Söfn

Afrískar grímur í Náttúru- og þjóðminjasafninu í Santa Cruz

Náttúru- og þjóðminjasafn

Náttúru- og þjóðminjasafn Tenerife, Museo de la Naturaleza y Arqueología, er í höfuðborginni Santa Cruz. Afrísku grímurnar tilheyra sýningu frá 2019 sem hét ‘Afrotopos. Towards an African utopia.’ Í safninu er margt að sjá sem getur vakið forvitni og áhuga barna, sem og fullorðinna.

Vísindasafn, hernaðarsafn, listasafn

Safnhús með fallbyssum fyrir framan
Á hernaðarsafninu er margt spennandi að sjá

Önnur söfn sem mælt er með fyrir alla fjölskylduna eru hernaðarsafnið í Santa Cruz, Museo Historico Militar de Canarias; vísindasafnið í La Laguna, Museo de la Ciencia y el Cosmos; sögu- og mannfræðisafnið í La Laguna, Museo de Historia y Antropologia de Tenerife (Casa Lercaro); og listasafnið í Santa Cruz, Circulo de Bellas Artes de Tenerife. Nánari upplýsingar um söfnin, ummæli og fleira er undir flipanum söfn hér að ofan.

Afþreying í Puerto de la Cruz

Fyrir norðan er vinsælt að heimsækja borgina Puerto de la Cruz, aðallega út af Loro Parque-dýragarðinum sem engin barnafjölskylda ætti að missa af. En líka af því að þar eru 2 svæði sem eru sérstaklega hönnuð með börn í huga; Lago de Martiánez (fyrir 8 ára og eldri) og Playa Jardín-ströndin. Rétt fyrir ofan hana er sérstakt leiksvæði fyrir börn. Það er skemmtilegt að fara þangað með smálestinni sem fer frá Playa de Martíanez í miðbæ Puerto de la Cruz.

Lago de Martiánez í miðbæ Puerto de la Cruz

Vegurinn sem Playa Jardín-ströndin liggur við endar hjá Loro Parque-dýragarðinum en honum er lýst nánar hér. Það er best að mæta snemma í garðinn og áætla að vera þar heilan dag. Það er hægt að fara á eigin bíl, með fararstjórum eða Loro Parque-strætóinum.

Kastalinn Castillo de San Miguel í Garachico

Garachico

Eina byggingin sem stóð heil eftir eldgosið 1706 er kastalinn í Garachico. Þarna er hægt að sjá fallbyssur, akkeri og fleira spennandi. Aðgangseyrir er lágur.

Gönguferð í náttúrunni með nesti er alltaf góð hugmynd

Flugdrekahlaup

Það fást alls konar flugdrekar á Tenerife og börn og fullorðnir geta skemmt sér við að hlaupa með þá, til dæmis á ströndinni á kvöldin. Þessar myndir eru af heimasíðu Decathlon sem er í höfuðborginni.

Áin í Siam Park

Það er ýmislegt hægt að bralla á Tenerife, annað en að leika sér á ströndinni eða í hótelgarðinum. Til viðbótar við skemmti- og vatnsrennibrautagarða er fjölbreytt afþreying í boði fyrir börn á öllum aldri. Oft er hægt að kaupa miða með afslætti á heimasíðu hvers og eins staðar. Nánar er fjallað um vatnsrennibrautagarðinn Siam Park og dýragarðinn Loro Park á sér síðum.


(Fyrirtækin hafa ekki greitt fyrir auglýsingar eða kynnningar hér á síðunni.)