Loro Parque

Tvíburagarður Siam Park er dýragarðurinn Loro Parque, en hann er staðsettur hinumegin á eyjunni, í bænum Puerto de la Cruz. Það eru fríar rútuferðir á milli en þau ykkar sem eruð með bílaleigubíl eruð um klukkustund að aka á milli. Garðurinn var valinn sá besti í Evrópu og 2. besti í heimi. Best er að kaupa miða fyrir fram en það er líka miðasala við innganginn. Þar eru bæði hraðbankar og posar. Þegar miðar eru keyptir á netinu þarf að mæta með þá útprentaða.

Gott er að mæta snemma í garðinn til að sjá sem flestar sýningar, heilsa upp á górilluna, skoða krókódílinn og fiskana. Sýningin með sæljónunum er sýning sem enginn ætti að missa af, sérstaklega börnin, og það sama má segja um páfagaukana. Í nóvember 2019 er verið að endurbæta svæðið með sæljónunum.
Loro Parque er vottaður af samtökum sem fylgjast með að meðferð dýranna sé mannúðleg.
Hvað kostar í Loro Parque?
Venjulegt verð fyrir fullorðna eru 38 evrur, 26 evrur fyrir 6-11 ára börn, frítt fyrir börn sem eru yngri en 6 ára. Sama verð gildir fyrir miða á Siam Night en þá er opið frá 8 á kvöldin til miðnættis, fyrir utan að þá þarf að kaupa miða fyrir 4-11 ára börn. Það eru nokkrar gerðir af miðum í boði, premium, diamond, discovery o.fl. (Athugið að verðin gætu hafa breyst.)
Ef þið ætlið líka í Loro Parque þá er hægt að kaupa „tvíburamiða“ (twin ticket) í báða garðana með afslætti. Tvíburamiði kostar 66 evrur fyrir fullorðna og 45,50 evrur fyrir 6-11 ára börn. Miðar sem eru keyptir á heimasíðu garðsins gilda í 1 ár frá kaupdegi. Athugið að nú er líka hægt að kaupa „þríburamiða“ sem gildir í þessa tvo garða plús Poema del Mar sædýrasafnið á Gran Canaria. Það er hægt að gera sér dagsferð þangað með ferjunni sem gengur á milli eyjanna. (Munið bara að taka með ykkur vegabréfin.)
Það er hægt að panta þessa miða fyrir fram á heimasíðu garðanna, ásamt miðum í Loro Parque-strætóinn.
Þið fáið kort af garðinum við innganginn og getið þá valið á hvaða sýningu þið viljið byrja. Nokkrar sýningar eru í gangi í einu og það er tímatafla við hvert svæði.
Munið eftir sólarvörn og hatti ef það er sól, annars er auðvelt að brenna. Hér og þar í garðinum er skjól fyrir sólinni og sum sýningarsvæðin eru inni í kaldara lofti. Það eru veitingastaðir í nokkrum verðflokkum víða um svæðið og auðvelt að finna stað til að kaupa vatn eða fara á klósettið.