Bílaleigur

Bílaleigur

Flestar af stærstu bílaleigunum eru með nokkur útibú á Kanaríeyjum. Það er hægt að fá bílaleigubíl afhentan á flugvellinum (Tenerife Sur – Reina Sofia) eða hvar og hvenær sem ykkur hentar. Stærstu bílaleigurnar eru líka með afgreiðslustaði á ferðamannasvæðunum, til dæmis rétt hjá Laugaveginum á Amerísku ströndinni. Til að leita að bílaleigu nálægt ykkar gististað, er einfaldast að nota Google Maps.

Það er mjög þægilegt að keyra á Tenerife, vegirnir eru almennt góðir og bílstjórar eru tillitssamir og virða rétt annarra, líka gangandi og hjólandi vegfarenda. Það er sjaldgæft að sjá einhverja haga sér illa í umferðinni eða aka glannalega.

Bókunarvél á íslensku

Í bókunarvél Rental Cars er hægt að bera saman verð á bílum hjá mismunandi bílaleigum, staðfesta bókun og ganga frá pöntun. Bókunarvélin kemur oftast með hagstæðustu verðin og er auk þess á íslensku. Gæti ekki verið einfaldara!

Leiga og afhending á bílaleigubíl

Passið vel upp á að yfirfara bílinn þegar þið takið við honum. Ef þið sjáið rispu, beyglu eða eitthvað annað athugavert, látið þá starfsmann bílaleigunnar skrifa það í athugasemdir á samninginn. Gott að taka líka myndir. Ef þetta er ekki gert, getið þið lent í vandræðum þegar þið skilið bílnum. Jafnvel verið krafin um bætur.

Leigja rútu eða mini-bus

Fyrir hópa sem eru að ferðast saman og vilja fara í einkaferð í rútu, getur verið sniðugt að leigja rútu með bílstjóra. Sun Transfers hafa fengið góð meðmæli. Þar er boðið upp á leigubíla og rútur af öllum gerðum, með bílstjóra. Hér er hægt að fá nánari upplýsingar um verð og gerðir ökutækja.

Mikilvægt varðandi umferðina

Hámarkshraði á hraðbrautunum er oftast 120 km.

Reglur í hringtorgum eru ekki eins og á Íslandi því á Spáni er það YTRI hringur sem á réttinn út. Þetta hefur valdið ófáum árekstrum og því mikilvægt að muna.

Athugið að á Tenerife er bannað að aka í sandölum og skóm sem eru opnir að aftan.

Gata og bílar á Tenerife
Hringtorg á Playa de las Américas