Jól & áramót á Tenerife

Jól & áramót á Tenerife

Sífellt fleiri kjósa að verja jólunum í sól og sumaryl fjarri stressinu á Íslandi, enda er fátt jafn endurnærandi og frí á paradísareyjunni Tenerife. Meðalhiti í desember og janúar er um 19-20°C. Það er nógu hlýtt til að fara í sólbað en gott að hafa með sér jakka eða peysu þegar farið er út á kvöldin. Tenerifebúar halda ekki upp á jólin fyrr en í janúar og þess vegna er flest opið eins og venjulega 24. og 25. desember.

Veðurspá um jólin

Hér er uppfærð spá frá því í gær, þar sem hún hefur breyst til hins betra fyrir sum svæði.

Los Cristianos og Adeje: Fyrri hluta Þorláksmessudags er spáð rigningu. Á aðfangadag og jóladag er spáð 20-21° hita og sól.

Ameríska ströndin (Arona): Það er von á rigningu á Þorláksmessukvöld og aðfangadag. Eftir það er spáð sól og 21° hita.

Fyrir norðan, í Puerto de la Cruz og höfuðborginni Santa Cruz, er spáð sól og 22° á aðfangadag og jóladag.

Jólaskreyting á Tenerife

Út að borða á aðfangadagskvöld

Flestir veitingastaðir á Tenerife eru opnir um jól og áramót. Það borgar sig þó alltaf að panta borð með löngum fyrirvara þegar planið er að fara út að borða á hátíðisdögum, hvort sem það er fyrir tvær manneskjur eða stærri hópa. Það á sérstaklega við um 24. og 25. desember, og um áramótin, til að lenda ekki í vandræðum. Til dæmis er einfalt að panta borð í gegnum Tripadvisor. Svo er líka hægt að hafa samband beint við veitingastaðina eða fá aðstoð hjá hótelinu ykkar. Ef þið gistið á hóteli og ætlið ykkur að borða á veitingastað hótelsins yfir hátíðarnar, er nóg að hafa samband við hótelið til að panta borð.

Eldað „heima“

Sum okkar kjósa að elda eigin jólamat í fríinu í stað þess að fara út að borða. Það er heimilislegra og þægilegra, sérstaklega þegar ung börn eru með. Ef þið getið til dæmis ekki hugsað ykkur jól án hamborgarhryggs þá getið þið annað hvort tekið hann með ykkur út eða kíkt í kjötborðið í Mercadona, Alcampo, HiperDino eða annarri matvörubúð.

Kanareysk jól

Aðfangadagskvöld er Nochebuena á spænsku og jóladagur er día de Navidad. Aðal jólahátíð Tenerifebúa er 6. janúar (þrettándinn) og þá fá krakkarnir pakka. Íbúar Kanaríeyja eru kaþólskrar trúar eins og meirihluti Spánverja, og 6. janúar er dagur vitringanna (Día de los Reyes Magos). (Strax á eftir hefjast síðan útsölurnar.)

Hefðbundinn jólamatur á Spáni er lambakjöt. Eftirmaturinn er turrón; núggat-konfekt sem er meðal annars búið til úr sírópi og hnetum. Það fæst á mörgum veitingastöðum. Turrón er líka hægt að kaupa í alls konar útgáfum í matvöruverslunum.

Við mælum líka með að prófa sætar jólakökur sem heita truchas de batata. Þær eru úr smjördeigi og fylltar með sætum kartöflum, sítrónu, möndlum, eggjarauðum, sykri, kanil og anísfræi.

Sætar jólakökur – Truchas de batata

Ef þið eruð hrædd um að fá heimþrá yfir jólin þá getur verið gaman að hitta samlanda sína, til dæmis á Íslendingabarnum. Það stefnir í að um eða yfir 1% Íslendinga verði á Tenerife þessi jól eins og síðustu ár.

Áramótin

Það er líf og fjör á eynni um áramótin. Veitingastaðir, skemmtistaðir og pöbbar eru opnir og það verða flugeldasýningar á fjölmennustu stöðunum. Mörg hótel eru líka með sína eigin dagskrá. En ef þið viljið vera fjarri stuðinu í bænum er hægt að hafa sína einkaveislu úti í garði eða á svölunum, enda veðrið yfirleitt of gott til að hanga inni.

Áramótaskaupið

Það verður hægt að horfa á áramótaskaupið á Tenerife. Það verður í opinni dagskrá og hægt að horfa á það á RÚV appinu. Appið er ókeypis og það er hægt að sækja það á Play Store (fyrir Android tæki) eða App Store (fyrir Apple tæki). Hér eru ítarlegri leiðbeiningar á vef RÚV.

Það verður líka sérstök áramótadagskrá hjá Íslendingabarnum Nostalgía. Þau ætla meðal annars að sýna áramótaskaupið.

Jólamaturinn á spænsku – Orðalisti

Það er mjög gott úrval af mat og drykk í matvörubúðum á Tenerife. Eina vandamálið getur verið að skilja hvað er hvað. Áður en farið er í búðina (eða út að borða) er gott að vista í símann spænsku heitin á því sem ykkur langar í. Hér er orðalisti yfir það helsta sem Íslendingar borða í jólamatinn:

Hamborgarhryggur = lomo de cerdo ahumado – Lambahryggur = lomo de cordero – Nautakjöt = filete de ternera, entrecot de ternera – Hnetusteik = asado de frutos secos – Vegan kjöt = carne vegetariana, (carne vegana eða asado vegetariano) – Kalkúnn = pavo – Kjúklingur = pollo – Perluhænsn = gallina de Guinea

Kartöflur = papas – Sætar kartöflur = papas dulces – Rauðkál = repollo rojo – Rauðrófur = remolachas en tajadas – Grænar baunir = guisantes verdes – Rósakál = coles de Bruselas – Waldorf salat = ensalada Waldorf – Rjómi = crema – Sósa = salsa