Veður
Sólin skín flesta daga á Tenerife og hitastigið er nokkuð jafnt allt árið. Það er yfirleitt hlýjast á sumrin og svalasti tíminn er í janúar-febrúar. Hitastigið fer þó yfirleitt ekki undir 15-17 gráður á daginn. Nýlega hafa verið hitabylgjur á óvenjulegum árstíma, að öllum líkindum vegna veðrabreytinga.
Aðal ferðamannasvæðið (Adeje og Arona) er á suðurhlutanum. Þar eru fleiri sólardagar og líka aðeins hlýrra. Á norðurhlutanum er aðeins svalara yfir veturinn og það rignir oftar, eins og sést vel á gróðrinum. Heitasti tíminn er ágúst en sá kaldasti janúar.
Hér sést yfirlitskort yfir hitatölur. Fyrsti stafur mánaðanna er í bláu reitunum og meðalhiti yfir daginn er í gulu reitunum. Ljósgrænu reitirnir sýna hitatölur yfir kvöld og nótt.
Calima sandstormur
Calima eru heitir vindar frá Sahara-eyðimörkinni í Afríku, sem ganga stundum yfir Kanaríeyjar með tilheyrandi sandroki. Þetta er almennt hættulaust veðurfyrirbæri en getur þó haft áhrif á fólk með öndunarfærasjúkdóma. Einnig eru dæmi um að sandstormar hafi haft áhrif á flug og viðburði sem eru haldnir utandyra.
Calima lítur út eins og á myndunum hér, loftgæðin geta verið misjöfn. Það fylgir þessu yfirleitt hækkað hitastig og sumir ferðamenn láta þetta ekki hafa nein áhrif á sólböðin. Calima gengur yfirleitt yfir á 1-3 dögum og þá er hægt að nota daginn í að versla, heimsækja söfn eða fara í skoðunarferðir, svo lengi sem loftgæðin eru góð. (Ef þau verða mjög slæm getur verið að verslunum sé lokað.)
Þegar calima er, fylgja stundum engisprettur. Þær leggjast á gróður og eru hættulausar fólki.
Stundum er þó ráðlagt að halda sig inni, svo það er best að fylgjast með tilkynningum frá yfirvöldum þegar von er á calima.
Vindmyllur
Það getur blásið hressilega á eyjunni og Tenerifebúar hafa nýtt sér það vel. Vindmyllur sjá stórum hluta Tenerife fyrir rafmagni. Þessir vindmyllugarðar sjást frá hraðbrautinni á nokkrum stöðum en þyrpingarnar eru orðnar 18 talsins. Orkuframleiðslan jókst um 137% frá 2015-2018 og framleiðslugetan er um og yfir 186,67 MW.