Masca – Týnda þorpið
Á norðvesturhluta Tenerife er Masca eða „týnda þorpið.” Samkvæmt þjóðsögum er þetta gamalt sjóræningjaþorp en sjóræningjar réðu yfir hafsvæðinu hér á 16. öld. Fyrsti vegurinn að þorpinu var lagður 1972 en þangað til hafði það verið lokað inni í dal milli hárra fjalla og engin leið að komast að því nema gangandi. Vegurinn þangað er hlykkjóttur og brattur en það er algjörlega þess virði að skoða þorpið. Jafnvel þótt beygjurnar séu kallaðar „hárnálabeygjur.” Best væri að vera á Austin Mini en einhvern veginn komast rútur þarna niður.
Það eru aðeins um 100 íbúar í Masca. Helmingur húsanna eyðilagðist í skógareldum árið 2007 en sem betur fer hafði þorpið verið rýmt í tæka tíð.
Fjallagarpar geta farið aðra og erfiðari leið að Masca en þá er komið sjóleiðina frá Puerto de Santiago og gengið upp að þorpinu. Fjallgangan tekur 3-4 tíma aðra leiðina og það er klifið hluta af leiðinni.