Tilkynning vegna útgöngubanns á Kanaríeyjum & Spáni

Tilkynning vegna útgöngubanns á Kanaríeyjum & Spáni

Eins og Almannavarnir hafa tekið fram síðustu daga geta hlutirnir breyst hratt. Nú þarf fólk sem kemur til Íslands frá Kanaríeyjum (Tenerife/Gran Canaria o.fl.) að fara í 14 daga sóttkví við komuna til Íslands.
Auk þess er verið að takmarka flugferðir og ferðafrelsi fólks á Tenerife, Kanarí (öllum Kanaríeyjunum), og meginlandi Spánar milli 15.- 30/31. mars 2020.

Útgöngubann gildir um allar Kanaríeyjarnar (Tenerife, Kanarí) og Spán

Matvöruverslanir, apótek, bankar og bensínstöðvar eru og verða OPIN en aðrar verslanir, barir og veitingastaðir eiga að loka í 15 daga, samkvæmt tilmælum yfirvalda. En fólki er óhætt að kaupa í matinn, fara á flugvöll, veita öðrum aðstoð og annað sem telst nauðsynlegt.

Þetta er gert til að hægja á útbreiðslu Covid-19 veirunnar.
Í Kína og Suður-Kóreu er smitum farið að fækka, svo vonandi fer að sjá fyrir endann á þessum faraldri.👏🌞

Vantar þig aðstoð?

Fólki er bent á að hafa samband við sinn fararstjóra, ferðaskrifstofu eða flugfélag. Heimasíða flugvallanna á Kanaríeyjum og Spáni er HÉR. Það er líka hægt að hafa samband við utanríkisráðuneytið:

Aðstoð við Íslendinga erlendis – Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins stendur vaktina allan sólarhringinn í síma +354 – 545-0-112

Evrópska sjúkratryggingakortið

Fólki hefur verið ráðlagt að flýta för sinni heim til Íslands ef það hefur tök á því. En þið sem dveljið úti til lengri tíma þurfið að kanna réttindi ykkar varðandi heilbrigðisþjónustu. (Ef þið hafið ES-kortið ættuð þið að vera í góðum málum.🌞)
Evrópska sjúkratryggingakortið (ES-kortið) staðfestir rétt korthafa til heilbrigðisþjónustu hjá þjónustuaðilum innan hins opinbera. Það kostar ekkert að fá kortið og það á að vera hægt að fá pdf-skjal af kortinu strax þegar sótt er um á netinu.📧 Einfalt er að sækja um kortið, sjá hér.
Athugið að ES-kortið tryggir ekki framlengdan hótelkostnað eða þess háttar.

🇪🇸Fólk á Torrevieja-svæðinu hefur sætt útgöngubanni frá laugardagskvöldinu 14. mars en lögregla hefur ekið þar um götur og beðið fólk um að halda sig heima, nema erindið sé nauðsynlegt.

Mynd: Ástin á tímum kórónaveirunnar. AP Photo/Emilio Morenatti.