Rafræn Covid vottorð

Rafræn Covid vottorð

Þessar reglur GILDA EKKI LENGUR um ferðir frá Íslandi til Kanaríeyja

Hér eru leiðbeiningar um hvernig á að skrá sig inn í landið, þegar ferðast er til Kanaríeyja (og Spánar). Þessar reglur voru bara í gildi frá apríl-maí 2022. (Nú þarf ekki lengur að sækja um QR-kóða eða rafrænt Covid vottorð.)

Grímuskylda og samkomutakmarkanir voru felldar niður í apríl 2022.

Hvernig eru rafræn Covid vottorð?

Ef fólk er að koma til Kanaríeyja og Spánar frá löndum utan EU og Schengen, þarf að skrá sig. Þau vottorð sem eru tekin gild eru bólusetningarvottorð /eða/ batavottorð /eða/ neikvætt Covid-próf. Ef þessi vottorð eru rafræn (til dæmis pdf skjöl), má sleppa því að sækja um QR-kóða.

Börn undir 12 ára aldri þurfa hvorki rafræn vottorð (DCC) né QR-kóða.

Þá er nóg að skrá þessi rafrænu vottorð hjá Spth, áður en farið er í ferðina. (Sjá ítarlegar leiðbeiningar hér neðar.) Ísland er ekki hluti af EU en er samt aðili að þessu nýja kerfi.

Til að ganga úr skugga um hvort þitt vottorð verði samþykkt, er hægt að sannreyna það á heimasíðu Spain Travel Health. Á ensku heita vottorðin (Digital Covid Certificate-DCC).

Rafrænt Covid vottorð – Leiðbeiningar

Þessar reglur GILDA EKKI LENGUR um ferðir frá Íslandi til Kanaríeyja

Þú velur gula reitinn (vinstra megin á mynd). Þá opnast þessi gluggi eins og sést á næstu mynd fyrir neðan; Check the validity of your EU DCC or EU equivalent. Þar skráirðu hvernig vottorð þú ert með.

Heimasíða Spain Travel Health (SpTh)
  • Þú velur dagsetningu brottfarar (departure date);
  • frá hvaða landi þú kemur til Spánar/Kanaríeyja;
  • hleður upp vottorðinu þínu;
  • hakar við að þú sért manneskja (I am human); og
  • smellir á Validate (sannreyna).

Það er tekið fram að það þurfi að sýna rafræna vottorðið áður en farið er um borð í flugvélina. Þegar þessu er lokið, þarftu ekki að gera meira.

Hér fyrir neðan eru leiðbeiningar fyrir þau sem eru ekki með rafræn covid vottorð.


Booking.com

Ef þú hefur ekki rafræn Covid vottorð

Ef þið eruð ekki með rafræn vottorð fyrir bólusetningu, Covid-prófi, eða bata, þarf að sækja um QR-kóða frá Spain Travel Health (SpTH). (Hann er svipaður og strikamerki.) Það þarf að hlaða honum niður í síma og sýna við brottför frá Íslandi og við komu til Kanaríeyja.

Það má sækja um QR-kóðann síðustu 48 tímana fyrir brottför. En það má fylla út eyðublaðið fyrr, án þess að senda umsóknina strax. Best er að sækja um QR-kóðann í appinu SpTH því þá er auðveldara að vista og finna kóðann. En það má líka sækja um á heimasíðu SpTH, (opnast í nýjum glugga).

Undir NEW FORM á að velja INDIVIDUAL fyrir einstakling eða FAMILY/GROUP fyrir fjölskyldu eða hóp sem ferðast saman. Ef fjölskylda sækir um saman, er ein manneskja skráð sem ábyrgðaraðili hópsins í eyðublaðinu.

Í eyðublaðinu sem opnast þarf að fylla út eftirnafn (surname) og fornafn (name); vegabréfsnúmer (passport number); flugnúmer (flight number); komudag (arrival date); email og síðan staðfesta email. Reitina tvo fyrir neðan þarf aðeins að haka við ef þið eruð bara að millilenda á Kanaríeyjum/Spáni (efri reitur), eða ef eyðublaðið er fyllt út fyrir ólögráða einstakling (neðri reitur). Neðst þarf að haka við að þið séuð ekki vélmenni og svo á að staðfesta að þið hafið lesið og skilið skilmálana. Svo er ýtt á Send (ef það eru 48 tímar eða minna að brottför).

Að þessu loknu fáið þið sendan QR-kóða í tölvupósti með fyrirsögninni Spain Travel Health: Form registration.

Næst þarf að hlaða QR-kóðanum niður (vista) í síma. Ef þið sóttuð um á netinu og getið ekki opnað tölvupóstinn í símanum þá er hægt að fara inn á SpTH síðuna og smella á Retrieve QR. (Prentaðar útgáfur eru ekki leyfðar.)

Bólusetningarvottorð -eða- Covid-próf -eða- batavottorð

Fyrir þau sem sækja um QR-kóða og eru ekki með rafræn vottorð: Fullorðnir og börn sem eru 12 ára og eldri, þurfa að hafa bólusetningarvottorð eða neikvætt Covid-próf (hraðpróf í lagi) eða vottorð fyrir bata eftir Covid-19 veikindi. Það þarf bara að skrá 1 af þessu þrennu í umsókn um QR-kóða. Athugið að ef þessi vottorð eru rafræn, er nóg fyrir ykkur að skrá þau sem rafrænt Covid vottorð.

Bólusetningarvottorð eru sótt inni á Heilsuvera.is undir „Mínar síður“ efst til hægri. Þar þarf að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum. Til að framvísa bólusetningarvottorðinu erlendis verður vottorðið að vera á ensku, og það má vera á pappír eða rafrænu formi. Ef það er á rafrænu formi þarf að hlaða því inn þegar sótt er um QR-kóðann.

Aldur vottorða

Ef fólk er ekki með bólusetningarvottorð eða batavottorð, þarf að framvísa vottorði um neikvætt próf. Hraðpróf (Antigen) mega ekki vera meira en 24 klst gömul þegar komið er til Kanaríeyja. PCR-próf mega ekki vera meira en 72 klst gömul við komu. Vottorð um bata eftir Covid-19 veikindi mega ekki vera meira en 180 daga gömul.

Börn undir 12 ára aldri þurfa ekki að sýna nein vottorð við komuna til Kanaríeyja. Þau þurfa samt að vera skráð með sínum forráðamönnum á QR-kóðanum. Það gæti líka þurft að sýna vottorð þegar fólk skráir sig inn á hótel.

Athugið að þetta er birt með fyrirvara um breytingar, enda geta reglur breyst með litlum fyrirvara. Hér er hægt að skoða nýjustu reglur um takmarkanir.


Við komuna til Íslands

Aðgerðum á landamærum Íslands vegna COVID-19 hefur verið aflétt með öllu frá og með 25. febrúar 2022. Það þarf því ekki lengur að skrá sig áður eða þegar komið er til Íslands. Það þarf heldur ekki að framvísa vottorði þegar farið er um borð í flugvél eða við komuna. (Sjá hér: Heimkoma.)

Nýjustu reglur frá yfirvöldum Kanaríeyja

Á heimasíðu yfirvalda Kanaríeyjanna er alltaf hægt að skoða nýjustu reglur, ef fólk er í einhverjum vafa um hvaða reglur eru í gildi. Heimasíðan er á ensku, en það má alveg hafa samband við Tenerife.is á Facebook til að fá aðstoð, eða spyrja í grúppunni Tenerife spjallið.

Nánari upplýsingar um kröfur flugfarþega fyrir komu til Kanaríeyja er að finna á heimasíðu yfirvalda eyjanna Canary Islands. Athugið að reglur Kanaríeyja geta að einhverju leyti verið frábrugðnar reglum um Spán, þar sem eyjarnar eru sjálfstæð eining innan Spánar.

Varasjóður

Á öllum ferðalögum erlendis á Covid-tímum ættu ferðalangar að eiga smá varasjóð til að grípa í ef eitthvað óvænt kemur upp á, hvort sem fólk er með góða ferðatryggingu eða ekki. Reglur geta breyst mjög hratt, eins og við höfum séð, rétt eins og faraldurinn. Ef til þess kemur að reglur eða annað breytist meðan á ferðinni stendur, getur komið sér mjög vel að hafa gert ráð fyrir aukaútgjöldum, t.d. vegna Covid-prófa, niðurfellingu á flugferðum, sóttkvíar, auka hótelkostnaðar og annarra óvæntra útgjalda. Auk þess er gott að hafa evrópska sjúkratryggingakortið ef þið veikist eða slasist á ferðalaginu. Sjá nánar hér um Tryggingar og Neyðartilvik.