Norður-Tenerife

Aðal ferðamannasvæðið er á suðurhluta Tenerife vegna þess að þar er sólríkara. Það er algjörlega þess virði að fara í skoðunarferðir um eyjuna, hvort sem er á eigin vegum í bílaleigubíl eða rútu, eða með íslensku fararstjórunum sem gjörþekkja eyjuna.

Eyjan er lítil en samt er mikill munur á gróðri og veðri, sérstaklega á veturna. Þriðja stærsta eldfjall í heimi, El Teide, er á miðri eyjunni og það hefur áhrif á veðurfarið. Það rignir sjaldan á suðurhlutanum og þar skín sólin nær alla daga ársins. Á norðurhlutanum rignir oftar sem verður til þess að gróðurinn er mjög fallegur þar, enda er næstelsti grasagarður Spánar, El Botánico, á norðurhlutanum, í bænum Puerto de la Cruz.

Á ferðamannasvæðinu á suðurhlutanum og í höfuðborginni Santa Cruz talar flest þjónustu- og afgreiðslufólk ensku en þegar aðrir hlutar eyjunnar eru heimsóttir má gera ráð fyrir að þurfa að nota orðabók eða Google translate.

Það er líka flugvöllur á norðurhluta Tenerife, Tenerife Norte. Þegar flogið er frá Íslandi er lent á flugvellinum fyrir sunnan, Tenerife Sur.